Kamera. Ljós. Gigg!
Smá bíó fyrir afþreyingariðnaðinn
Mannskepnan hefur sótt í afþreyingu frá því að hún byrjaði að segja sögur í kringum eldinn. Við höfum stytt okkur stundir við allt frá bardögum upp á líf og dauða í hringleikahúsum í Róm til hámhorfs í hlýju og öryggi stofusófans.
Eftir að hestaat, dans og söngur voru aflögð á Íslandi í gamla daga var fátt eftir annað en rímur og kirkjuferðir. Frá nútímavæðingu landins á 20. öld höfum við hins vegar náð að bæta okkur upp aldalangan afþreyingarskort með ofneyslu á skemmtiefni. Nóg fyrir alla af poppi og kvikmyndum; reyfurum, teiknimyndasögum, útvarps- og sjónvarpsþáttum.
Við fáum aldrei nóg af bíómyndum, sjónvarpssápum, hljóðbókum, hlaðvörpum, heimildarþáttum og gúffum í okkur heilu seríunum gegnum streymisveitur. Og nú eru Íslendingar komnir á kaf í að framleiða eigin afþreyingu. Okkar eigin Hollívúdd rís í Gufunesi og er farin að laða að sér hæfileikafólk úr ýmsum áttum enda er sjóbissnessinn algert gósenland fyrir giggara.
Stóru nöfnin á kreditlistanum
Þegar hetjan er búin að drepa vonda kallinn og hjólar heim í kvöldmat sjáum við THE END á tjaldinu. Það er bara upphafið á löngum kreditlista. Nöfn leikstjóra og aðalleikara, helstu aukaleikara, framleiðenda og handritshöfunda fylgja í halarófu eftir mikilvægi og hlutverki . Neðar á listanum eru giggarar með allskonar smærri hlutverk.
Margt smátt gerir eina stórmynd. Kreditlistinn er frábært dæmi um þann fjölda gigga sem finna má í afþreyingariðnaðinum.
Giggin mín stór og smá
Á eftir stóru nöfnunum koma smærri hlutverk, aukaleikarar og fleiri kunnugleg hlutverk: kvikmyndataka, lýsing, hljóðupptaka, hárgreiðsla, förðun og búningar, leikmynd og tæknibrellur.
Við sjáum hver samdi tónlist eða stýrði vali hennar. Þarna eru giggarar sem komu að ljósmyndun, hljóðupptöku, hönnun lýsingar og hljóðmyndar. Á listanum er aðstoðarfólk, deildarstjórar, listrænir ráðgjafar og danshönnuðir, fjármálastjórar, markaðsfólk, hugmyndasmiðir, textasmiðir, endurskoðendur, yfirlesarar og sérfræðingar – jafnvel sagnfræðingar ef sagan gerist í fortíðinni.
Vantar þig aukaleikara eða statista í næstu töku?
Settu inn smáauglýsingu á Giggó og sjáðu hvaða giggarar eru til í taskið.
Slangrið í bransanum
Kvikmyndagerð sækir mikið af orðaforðanum í enska tungu. Það er sennilega Hollywood að kenna — eða þakka. Við eigum íslenska titla á stóru nöfnin í bransanum, s.s. leikstjóra, leikara, handritshöfunda og klippara. Hins vegar skortir oft íslensk orð til að lýsa giggunum neðar á listanum. Þetta er alþjóðlegur iðnaður þar sem fólk af ólíkum þjóðernum vinnur saman. Enskan er því gjarnan fagmálið í kvikmyndagerð óháð heimalandi kvikmyndaversins.
„Statisti“ er hin fínasta íslenska í eyrum margra okkar en það er notað um fólk sem sést í bakgrunni senunnar og hefur enga rullu aðra en að vera til. Aðrir tala um aukaleikara í þessu samhengi en það getur skapað rugling við leikara í smærri aukahlutverkum.
Íslenskir kvikmyndagerðarmenn þurfa ekki alltaf að grípa til tökuorða. Þeir þurfa ekki stöntmenn til að hoppa fram af kletti meðan þeir geta auglýst eftir áhættuleikara á Giggó.
Á bak við hvíta tjaldið eru mýmörg bransa-orð. Skriftan til dæmis – hennar gigg er að skrá tökur, merkja og flokka. Hún sér um að kossinn og kjaftshöggið komi örugglega í réttri röð á hvíta tjaldinu. Í íslenskri kvikmyndagerð tala menn hins vegar oftast um propsara eða proppsara, það er stytting á enska heitinu Property Master og aðeins meira bíó en titillinn leikmunavörður.
Besti pilturinn í settinu
Mörg starfsheitin á listanum eru framandi fyrir fólk sem hvorki lifir né hrærist í kvikmyndabransanum. Gaffer (stytting á orðinu „grandfather“) er reynslubolti í rafmangslýsingu og ljósabúnaði. Sá gamli stjórnar ljósateymi þar sem hans hægri hönd er „hinn besti piltur“ ef svo má kalla. Best boy er hjálparhella gamlingjans. Annar besti piltur er svo til aðstoðar fyrir yfirbrautarstjórann, eða Key Grip sem stýrir brautum og kranagræjum undir kamerumenn í settinu.
Þetta er bara toppurinn á jakanum í hafsjó af bíó-giggum en það er viðeigandi að klára þennan pistling með stuttum kreditlista – nokkrum fagorðum sem enn hafa ekki komist á blað.
Location Manager — „skátaforingi“ sem leitar uppi flotta tökustaði
Runner — „liðléttingur“ sem snattast og aðstoðar við upptöku
Dolly Grip — stýrir „brautargengi“ á tökustað
Boom Operator – „hengilmæna“ með hljóðnema á stöng
Þessi listi er alls ekki tæmandi. Veist þú um skemmtileg nýyrði sem skotið hafa rótum í íslenskri kvikmyndaframleiðslu? Sendu okkur þá póst á giggo@giggo.is