5 heitustu Giggarar landsins

Hvar finnur þú fima fingur til að laga dimmerinn og skapa rómantíska stemningu í stofunni? Hver getur komið hita á ofninn og sett fyrir lekann í eldhúsinu? Ef þú vilt fá svör við þessum spurningum er Giggó örugglega með svarið.
Giggó virkar nánast eins og stefnumóta-apparat fyrir fólk með aðkallandi verkefni. Þú póstar auglýsingu í appinu eða á vefnum og áður en varir færðu girnileg tilboð frá heitustu giggurum landsins.
Giggó er með hátt í 10 þúsund giggara á skrá sem eru meira en til í verkefni af ýmsu tagi. Eftirsóttastir í þeim hópi eru iðnaðarmenn. Það er eins og fólk fái hreinlega aldrei nóg af þeim.
Giggó lék forvitni á að vita hvaða iðnaðarmenn væru heitastir á landinu. Eftir sveittar rannsóknir og heiðarlegt mat höfum við komist að niðurstöðu og raðað fimm heitustu iðnaðarmönnum landsins upp af handahófi. Hver er heitastur í þínum augum?
Pétur Ingi
39 ára pípari
Milli þess sem Pétur Ingi handleikur rörtöngina hjá Jóni og Boga rekur hann sitt eigið pípulagningafyrirtæki PI lagnir. Pétur er einstæður faðir tveggja barna og því í nógu að snúast í lífi og starfi. Hann er orkubolti sem er duglegur að mæta í ræktina og stundar tælensku bardagalistina Muay Thai af kappi. Pétur nýtur þess jafnframt að ferðast, bæði innanlands og erlendis.
Eftirminnilegasta giggið
Pétur Ingi elskar að vinna við pípulagnir og segir að öll sín verkefni hjá Giggó hafi verið frábær. „Ég hlakka mest til að takast á við næsta gigg,“ segir hann að lokum.

Hrafnkell Orri
19 ára smiður
Í dagvinnunni sveiflar Hrafnkell hamri sínum í smíðaverkefnum fyrir uppsteypuverktakann BV Verk. Eins og gefur að skilja þá á þessi handlagni fríðleikspiltur kærustu. Ingibjörg Emilía heitir sú lukkulega.
Hrafnkell hefur hefur yndi og gleði af íþróttum; sérstaklega golfi, skvassi og körfubolta. „Og svo hef ég líka rosalega gaman að því að smíða,“ bætir hann við.
Eftirminnilegasta giggið
Aðspurður um eftirminnilegasta giggið þá nefnir hann gluggaskipti. „Við vorum tveir í þessu, smíðuðum opnanlegt fag og skiptum um gler á glugga á 3. hæð,“ segir Hrafnkell glaður á svip, meðan hann rifjar upp þetta skemmtilega verkefni.

Arnar Pétursson
36 ára húsgagnasmiður
Arnar er ekki bara húsgagnasmiður heldur hefur hann sérfræðikunnáttu í tekki, efnivið í mublur af bestu sort. Arnar er trúlofaður Halldóru Rut Baldursdóttur, leikkonu og verkefnastjóra, og saman eiga þau þrjú börn.
Þessi handlagni húsfaðir er auk þess gítarleikari í hljómsveitinni Mammút. „Svo er ég svo heppinn að hafa brennandi áhuga á öllu sem viðkemur smíðinni og öðrum iðngreinum,“ segir Arnar sem nýtir Youtube óspart til að bæta við þekkingu sína.
Eftirminnilegasta giggið
Arnar er fljótur að svara til um besta giggið. „Þegar ég bjó til baðherbergi frá grunni í lítilli risíbúð á Njálsgötu — það er eitt skýrasta dæmið um hversu skapandi og gefandi þessi vinna getur verið.“

Jóhann Víðir
32 ára rafvirki
Hann er rafvirki eins og fas hans gefur til kynna. Jóhann Víðir hefur lifibrauð af því að tengja rofa, draga leiðara í rör og fylla híbýli fólks af öryggi.
Jóhann er trúlofaður og þegar við spyrjum hann út í áhugamálin svarar hann strax: „Óendanlegur áhugi á rafmagni … djók!“ Þessi stuðbolti hefur hefur mjög gaman af öllu sem tengist tónlist, spilar á nokkur hljóðfæri en mest á gítar. „Mér finnst líka gaman að gera mér glaðan dag með góðu fólki í mat og drykk. Eiga góðar stundir.“
Eftirminnilegasta giggið
Jóhann segir að langflest verkefna sinna séu skemmtileg en minnist þó sérstaklega eins sem gekk m.a. út á að koma fyrir hitaþræði í bústað í Grímsnesi. „Þar voru skemmtileg hjón sem buðu upp á kaffi og allt gekk vel. Það er mjög skemmtilegt þegar hlutirnir ganga smurt,“ segir Jóhann sposkur.

Vilhjálmur Stefán Þráinsson
32 ára pípari
Vilhjálmur er Vaffið í VHL Verk, fjölskyldufyrirtæki í Mosó sem er með smið, rafvirkja og pípara á sínum snærum. Vilhjálmur er í sambúð og með tvö börn á heimilinu. Hann hefur gaman af ferðalögum og reynir að komast á gönguskíði þegar veður og snjóalög leyfa. Annars þykir honum best að verja frítímanum með fjölskyldu sinni og vinum.
Eftirminnilegasta giggið
Þegar Giggó innti þennan sjóðheita pípara eftir eftirminnilegu giggi þá stóð ekki á svarinu. „Þetta var gigg í sumarhúsi sem orðið hafði fyrir frostskemmdum svo að grýlukertin stóðu í allar áttir.“

Eftirsóttir iðnaðarmenn
Iðnaðarmenn eru eftirsóttir hvar sem þá er að finna. En að finna þá er ekki alltaf auðvelt. Hver er með lausan tíma þegar þörfin kallar? Þú getur sparað þér leitina með því að setja inn smáauglýsingu á Giggó.
Áður en varir færðu tilboð frá iðnaðarmönnum sem eru lausir þá stundina og semur um tíma og verð í appinu. Hver veit nema einhver af sjarmatröllunum hér að ofan geri þér tilboð, næst þegar þig vantar smið, rafvirkja eða pípara?
Veist þú um sjóðheitan iðnaðarmann sem myndi sóma sér vel á þessum lista? Láttu hann endilega vita og gáðu hvort hann sé ekki örugglega á Giggó.